Skólinn

SAGA OG SÉRSTAÐA LÆKJARSKÓLA

Lækjarskóli, sem hét áður Barnaskóli Hafnarfjarðar og þar á undan Barnaskóli Garðahrepps, á sér samfellda sögu allt frá árinu 1877. Þá gáfu prófastshjónin á Görðum, Þórarinn Böðvarsson og Þórunn Jónsdóttir, stórfé til minningar um son sinn, Böðvar, til að koma á fót alþýðuskóla. Þetta var heimajörðin Hvaleyri með öllum húsum og jarðarnytjum ásamt skólahúsinu Flensborg með ofnum, borðum og bekkjum og öllu naglföstu; útihús úr timbri og tún girt. Í fyrstu skólanefndinni sátu ásamt Þórarni prófasti, sem var formaður, Christian Ziemsen verslunarstjóri í Hafnarfirði og Grímur Thomsen.

Árið 1882 var stofnuð við skólann gagnfræðadeild, eða „real skóli“ eins og hann var kallaður, og er það talið upphaf núverandi Flensborgarskóla. Árið 1902 var reistur barnaskóli við Suðurgötu sem var stækkaður 1921. Það sama ár var einnig reist íþróttahús þar skammt frá. Skólahúsið við Suðurgötu varð fljótlega of lítið svo skólanefnd ákvað árið 1926 að reisa nýtt skólahús. Hið nýja barnaskólahús við Skólabraut var vígt 2. október 1927. Íþróttahúsið var flutt að Skólabraut árið 1934 og þjónaði skólanum fram til ársins 2005. Íþróttahúsið var stækkað 1959 þegar bætt var við búnings- og baðklefum og tveimur kennslustofum. Árið 1945-46 var byggt við hvorn enda skólans og síðast 1978-80 við bakhlið hans.

Haustið 1961 tók Öldutúnsskóli til starfa í Hafnarfirði. Þá var Barnaskóli Hafnarfjarðar nefndur Lækjarskóli. Nýtt skólahús hefur verið byggt fyrir Lækjarskóla að Sólvangsvegi 4 og var fyrri áfangi tekinn í notkun 22. ágúst 2002 og seinni áfangi haustið eftir. Íþróttahús og sundlaug voru tekin í notkun haustið 2005. Skólinn hefur verið einsetinn frá upphafi skólaárs 2002. Þannig hefur skólinn starfað á nokkrum stöðum og borið þrjú nöfn frá stofnun hans.

Sérstaða Lækjarskóli er í dag heilstæður grunnskóli með tæplega 500 nemendur. Skólinn er annar af tveimur skólum Hafnarfjarðar sem er í forystu við innleiðingu jákvæðrar skólafærni, SMT. Hornsteinar skólans eru ábyrgð, virðing og öryggi. Við Lækjarskóla er lögð áhersla á þroska hvers og eins. Skólinn er virkur í atferlismótun barna með einhverfu. Við skólann eru reknar þrjár sérdeildir fyrir Hafnarfjörð; deild fyrir nemendur með þroskaraskanir, móttökudeild fyrir erlenda nemendur og fjölgreinanám fyrir nemendur 9. og 10. bekkjar.  

Rekstur sérdeilda hefur farið vaxandi.

• 1999 var farið að vinna með atferlismótun fyrir nemendur með einhverfu innan skólans. Til þessa verkefnis voru ráðnir þroskaþjálfar og stuðningsfulltrúar sem leyst hafa verkefnið svo vel af hendi að til fyrirmyndar er fyrir aðrar stofnanir landsins.

• 2001 hóf fjölfatlaður nemandi nám við skólann. Hann stundaði nám sitt með aðstoð þroskaþjálfa og stuðningsfulltrúa.

• 2002 var stofnuð móttökudeild fyrir erlenda nemendur við Lækjarskóla sem hefur vaxið ört.

• 2002 var ráðinn deildarstjóri við móttökudeildina.

• 2003 var sérdeild Engidalsskóla flutt í Lækjarskóla.

• 2004 var ráðinn deildarstjóri við sérdeildina enda fjölgun nemenda mikil og sterkur faglegur grunnur lagður að starfinu.

• 2005 tók Lækjaskóli við rekstri fjölgreinanáms. Deildarstjóri var þegar starfandi við deildina.

• 2005 og 2006 var fjölgreinanámið stækkað úr einni deild í þrjár.

• 2006 var gerður samningur milli Hafnarfjarðarbæjar og Menntamálaráðuneytisins um stofnun fjölgreinabrautar á framhaldskólastigi.

• 2006 var farið af stað með svokallað fjöltækninám fyrir þá unglinga sem erfiðast áttu með aðlögun í almennu skólakerfi í Hafnarfirði.

• 2006 var ráðinn verkefnastjóri fyrir fjölnámið.

• 2007 var framkvæmd fyrri ákvörðun um að sérdeildin skuli vaxa með aldri skjólstæðinganna úr yngsta- og miðstigi upp í unglingastig, þ.e.a.s. verða heilstætt skólaúrræði.

• 2008 flutti fjöltæknideildin í húsnæði Gamla bókasafnsins. Deildarstjóri móttökudeildar varð jafnframt verkefnastjóri Hafnarfjarðarbæjar við móttöku erlendra nemenda. Ráðinn var verkefnastjóri við móttökudeildina. Nemendur sérdeildar fyrir þroskaröskun voru skráðir í almenna bekki og þátttaka þeirra í bekkjarstarfi aukin.

• 2009 var fjöltækninám sameinað fjölgreinanámi og úr varð svokölluð fjölgreinadeild. Frá og með hausti 2009 voru því fjölgreinadeild og fjölgreinabraut reknar í húsi Menntasetursins við Lækinn.

2012 færðist fjölgreinabrautin undir forsjá framhaldsskólans og er nú alfarið á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Iðnskólinn í Hafnarfirði hýsir brautina og sér um hana að öðru leyti.


Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is