Eineltisáætlun Lækjarskóla 

Yfirlýst stefna Lækjarskóla er að einelti sé ekki liðið og að á því verði tekið.

Hvað er einelti?
Síendurtekið líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi –
einn eða fleiri níðast á eða ráðast ítrekað á einstakling.

Hvernig birtist eineltið?

Komið er fram við nemanda á eftirfarandi hátt:

Félagslega
skilinn útundan eða útilokaður úr vinahóp.
ógnað eða hann hæddur með orðum, niðrandi og særandi athugasemdir (svipbrigði, andvörp, grettur, bendingar, hermt eftir…..)

Líkamlega
hrint, sparkað í hann, hann sleginn, klipinn, hárreyttur, klóraður, o.s.frv.
haldið föstum eða lokaður inni.

Efnislega
Eigur nemanda eru ítrekað eyðilagðar eða þær hverfa s.s. skór, húfur, treflar, úlpur, pennaveski, skólataska, nesti o.fl.

Andlega
Þvingaður til að gera eitthvað sem stríðir gegn réttlætiskennd hans og sjálfsvirðingu, s.s. girt niður um hann, hann þvingaður til að eyðileggja eigur annarra, jafnvel skólans.
 Fær neikvæð skilaboð og samskipti rafrænt s.s  SMS, MSN og Facebook og aðrar hótanir.

Vísbendingar um að einelti eigi sér stað;
vill ekki fara í skólann, alltaf, stundum eða tímabundið
er hræddur við að fara í og úr skóla, vill láta keyra sig
fer óvenjulega leið til og frá skóla
kemur of seint í skólann eða heim úr skólanum
gengur verr í skólanum
týnir oft bókum, hlutum eða fötum
týnir vasapeningunum sínum af og til
kvartar undan vanlíðan, t.d. höfuðverk, magaverk, kvíða
neitar að segja frá hvað amar að
verður árásargjarn og uppstökkur

Forvarnir
Bekkjarreglur gegn einelti.
Áhersla á jákvæðan og lýðræðislegan skólabrag.
Yfirlýst stefna skólans er að einelti sé ekki liðið og að á því verði tekið.
Opin umræða um einelti og eineltisfræðsla í bekkjum.
Lausnaleit notuð með bekknum til að leysa ágreining.
Tengslakannanir lagðar fyrir reglulega.
Kannanir lagðar fyrir um líðan nemenda í skóla.
Unnið markvisst í lífsleikni að góðum samskiptum og umburðarlyndi.
Skýrar skólareglur, m.a. um hegðun.
Staða starfsfólks skólans styrkt með fræðslu.
Öflugt samstarf heimila og skóla frá byrjun skólagöngu.
Öflugt samstarf við félagsmiðstöðina Vitann.
Að skipulag skólans bjóði ekki upp á „tækifæri” til eineltis, s.s. einangraðir. staðir á skólalóð, búningsklefar íþróttahúss, sundlaugar, o.fl.

Eineltisteymi
Í skólanum er starfrækt eineltisteymi. Teymið fundar hálfsmánaðarlega og tekur þá fyrir mál sem borist hafa og þarfnast úrlausnar. Teymið ber ábyrgð á að í skólanum sé unnið í anda forvarna. Teymið hvetur starfsfólks til að vinna reglulega og  markvisst að forvörnum og bendir á góðar leiðir til þess.

Ferilslýsing í eineltismálum

1. Grunur um einelti tilkynnist til umsjónarkennara eða eineltisteymis. Eyðublað um tilkynningu vegna eineltis er hjá ritara.
2. Umsjónarkennara er gerð grein fyrir málinu ef tilkynning kemur frá öðrum starfsmanni eða aðstandendum.
3. Umsjónarkennari skráir málið á til þess gert eyðublað og greinir það samkvæmt skilgreiningu skólans á einelti. Umsjónarkennari vinnur eftir gátlista þar sem meðal annars er mælt með að:
a. Tengslakönnun verði lögð fyrir bekkinn.
b. Bekkurinn skrifar frásögn um líðan nemenda í bekknum, eða um einelti.
c. Leitað upplýsinga frá nemendum, öðrum kennurum, starfsfólki skólans, foreldrum, o.s.frv.
d. Lausnaleit notuð með bekknum.
4.  Umsjónarkennari vinnur að  framvindu málsins og getur ráðfært sig við og leitað aðstoðar námsráðgjafa eða eineltisteymis.
5. Umsjónarkennari sér um að uppræta eineltismál sem upp koma í bekknum hans.                                                                                             
6. Umsjónarkennari vísar eineltismálum sem tengjast út fyrir bekkinn eða milli árganga til námsráðgjafa og eineltisteymis.
7. Umsjónarkennari hefur samband við foreldra/forráðamenn þolenda og gerenda, í þeim tilfellum sem gerendur eru í bekknum.                 
8. Umsjónakennari gerir foreldrum/forráðamönnum grein fyrir:
a) Þeirri aðstoð sem skólinn veitir nemandanum.
b) Hvað foreldrar sjálfir geta gert til að aðstoða barn sitt.
c) Að þeim standi til boða að ræða við námsráðgjafa.
9. Umsjónarkennari vinnur markvisst að því að uppræta einelti.
10. Umsjónarkennari skráir allt ferlið í dagbók.
11. Ef ekki tekst að leiða mál til lykta er málinu vísað til lausnateymis skólans  ásamt skráningu á málsatvikum.
12. Eineltismál telst lokið þegar allir aðilar eru sammála um að tekist hafi að  uppræta eineltið og ekki hafi borið á því undanfarnar 3 vikur. Tilkynna þarf lyktir málsins til eineltisteymi skólans sem fer yfir lok málsins.

Einelti er aldrei liðið.

Eineltisteymi Lækjarskóla


Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is