Móttökudeild fyrir erlenda nemendur

Við Lækjarskóla hefur verið starfrækt móttökudeild fyrir erlenda nemendur síðan haustið 2002. Deildinni er ætlað að taka á móti öllum erlendum nemendum í 5. -10. bekk í Hafnarfirði sem nýkomnir eru til landsins og hafa enga færni í íslensku. 

Í móttökudeildinni er námsleg staða nemenda metin og tekin ákvörðun um hversu lengi nemendur stunda nám í deildinni.  Miðað er við að nemendur séu einn vetur í deildinni en þó er nauðsynlegt að meta hvert tilfelli fyrir sig.  Markmiðið með námi í móttökudeild er að auka þjónustu við erlenda nemendur og búa þá undir nám í sínum heimaskóla.  Áhersla er lögð á markvissa kennslu í íslensku sem öðru máli, stuðning við móðurmál nemenda, kennslu í námstækni og menningarfærni og aðstoð við aðlögun að íslensku samfélagi.

 Á meðan á námi í móttökudeild stendur eru allir nemendur auk þess tengdir við bekk í Lækjarskóla, hafa sinn umsjónarkennara og sækja tíma s.s. list- og verkgreinar, ensku og stærðfræði með bekknum, allt eftir stöðu hvers og eins.

Við móttökudeildina starfa 4 kennarar auk deildarstjóra og kennara í pólsku.  Auk þessa starfsfólks koma hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur, námsráðgjafi, deildarstjórar stiga og fulltrúi sérkennslu töluvert mikið að málefnum nemenda í deildinni.

Deildarstjóri móttökudeildar er Kristrún Sigurjónsdóttir.

Móttaka erlendra nemenda í Lækjarskóla

Við Lækjarskóla er starfrækt móttökudeild fyrir erlenda nemendur í 5.- 10. bekk sem þjónustar nemendur úr öllum hverfum bæjarins.  Nemendur í 1. – 4. bekk fara beint inn í bekki og fá aðstoð í íslensku utan skólatíma.  Deildarstjóri móttökudeildar ber ábyrgð á móttöku og námi erlendra nemenda sem stunda nám í móttökudeild.  Deildarstjóri sérkennslu og deildarstjóri yngsta stigs hafa yfirumsjón með móttöku og aðstoðartímum í íslensku fyrir erlenda nemendur í 1. – 4. bekk.

Móttökuteymi
Í Lækjarskóla er sérstakt móttökuteymi fagfólks sem hefur yfirsýn yfir mál erlendra nemenda.  Hlutverk teymisins er að móta faglega stefnu skólans í málefnum erlendra nemenda s.s. varðandi móttöku, nám, kennslu, aðstoð í íslensku sem öðru máli, félagslega aðlögun o.fl. og sjá til að þeirri stefnu sé framfylgt.   Í þessu teymi eru skólastjórnendur, deildarstjóri móttökudeildar, deildarstjóri sérkennslu, deildarstjóri yngsta stigs og hjúkrunarfræðingur.

Starfsemi móttökudeildar
Við Lækjarskóla hefur verið starfrækt móttökudeild fyrir erlenda nemendur síðan haustið 2002.  Deildinni er ætlað að taka á móti öllum erlendum nemendum í 5. -10. bekk í Hafnarfirði sem nýkomnir eru til landsins og hafa enga færni í íslensku.  Í móttökudeildinni er námsleg staða nemenda metin og tekin ákvörðun um hversu lengi nemendur stunda nám í deildinni.  Miðað er við að nemendur séu einn vetur í deildinni en þó er nauðsynlegt að meta hvert tilfelli fyrir sig.  Markmiðið með námi í móttökudeild er að auka þjónustu við erlenda nemendur og búa þá undir nám í sínum heimaskóla.  Áhersla er lögð á markvissa kennslu í íslensku sem öðru máli, stuðning við móðurmál nemenda, kennslu í námstækni og menningarfærni og aðstoð við aðlögun að íslensku samfélagi.  Á meðan á námi í móttökudeild stendur eru allir nemendur auk þess tengdir við bekk í Lækjarskóla, hafa sinn umsjónarkennara og sækja tíma s.s. list- og verkgreinar, ensku og stærðfræði með bekknum, allt eftir stöðu hvers og eins.

Starfsfólk
Við móttökudeildina starfa 6 kennarar, félagsráðgjafi og deildarstjóri. Auk þessa starfsfólks koma hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur, námsráðgjafi, deildarstjórar stiga og deildarstjóri í sérkennslu töluvert mikið að málefnum nemenda í deildinni.  Deildarstjóri móttökudeildar veitir kennurum í grunnskólum Hafnarfjarðar ráðgjöf varðandi kennslu og námsefni fyrir erlenda nemendur og stendur fyrir námskeiðum og fræðslufundum fyrir kennara og starfsfólk skóla.

Móttaka nemenda
Þegar erlendur nemandi er skráður í sinn heimaskóla kynna skólastjórnendur foreldrum eða forráðamönnum móttökudeildina sem þjónustumöguleika við börn þeirra.  Mikilvægt er að foreldrar skilji hvað um ræðir og því skal kalla til túlk ef þarf.  Óski foreldrar eftir því að nýta sér þessa þjónustu þurfa þeir að hafa samband við deildarstjóra móttökudeildar sem kemur á fundi.

Fyrsti fundur í móttökudeild fer fram með nemanda, foreldrum og túlki.  Á þessum fundi er leitað eftir upplýsingum sem varða nemandann s.s. fyrri skólagöngu, námsgengi, áhugamál, heilsufar o.fl.  Skólastarf er kynnt fyrir foreldrum og nemanda og skólinn sýndur.  

Foreldrar fá afhentan bækling um íslenska grunnskólann sem gefinn er út af Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og er til á 12 tungumálum.  Einnig fá foreldrar upplýsingar um ýmislegt sem snýr að skólastarfinu s.s. skólareglur, skóladagatal, Skólamat, Mentor, frístund, félagslíf o.fl.

Nám í móttökudeild
Miðað er við að nemendur séu 13 – 20 kennslustundir á viku í móttökudeildinni, aðra tíma s.s. list- og verkgreinar, stærðfræði og ensku (í sumum tilfellum) sækja þeir með bekknum.

Fyrstu dagana eru nemendur yfirleitt alveg inni í móttökudeild í aðlögun og mati á námsfærni.  Þegar nemendur hafa fengið umsjónarbekk og stundartöflu fá þeir fyrst í stað fylgd í list- og verkgreinatíma ef hægt er að koma því við.  Eftir því sem nemendum fer fram fara þeir meira inn í umsjónarbekkinn í samráði við kennara, kennslan í móttökudeild miðar þá að því að undirbúa þá undir bekkjartímana.

Útbúin er einstaklingsáætlun fyrir alla nemendur þar sem tillit er tekið til menningarlegra og námslegra forsenda. Lögð er áhersla á að nemendur nái markmiðum aðalnámsskrár að svo miklu leyti sem unnt er miðað við málfærni
Reglulega er lagt mat á námsframvindu nemenda.  Lögð er áhersla á að matið sé fjölþætt og miðist við málfærni nemenda.

Deildarstjóri og kennarar móttökudeildar fylgjast með framförum nemenda og ákveða með hliðsjón af námsmati og í samráði við foreldra og umsjónarkennara hvenær námi í móttökudeild lýkur.

Foreldrasamstarf
Áhersla er lögð á að hafa mikið og gott samstarf við foreldra og eru foreldrar hvattir til að heimsækja deildina eins oft og þeir vilja og geta. Tvisvar á ári er foreldrum sérstaklega boðið í skólann og hafa nemendur þá útbúið skemmti- og fræðsludagskrá fyrir forelda sína.

Deildarstjóri fundar reglulega með foreldrum og veitir þeim upplýsingar um námsframvindu barnsins, félagslega aðlögun o.fl. Reynt er að koma öllum almennum upplýsingum um skólastarfið til foreldra á móðurmáli þeirra.

Gott vald á eigin móðurmáli er forsenda þess að nemendur geti tileinkað sér nýtt tungumál.  Foreldrar eru því hvattir til að hlúa að móðurmáli barna sinna m.a. með því að aðstoða starfsfólk móttökudeildar við að útvega námsbækur, lestarbækur, tónlist, myndbönd ofl. á móðurmáli barnsins.

Samstarf við heimaskóla

Þegar námi í móttökudeild lýkur fundar deildarstjóri móttökudeildar með umsjónarkennara, deildarstjóra sérkennslu og kennara í íslensku sem öðru máli í heimaskóla þar sem farið er yfir námslega stöðu nemenda og hvernig best verði stutt við hann í almennum bekk.

Umsjónarkennari fær möppu með ýmsum upplýsingum sem varða bakgrunn nemandans s.s. afrit af gögnum frá heimalandinu, ljósrit af innritunarviðtali, einstaklingsnámskrá úr móttökudeild og afrit af námsmatsmöppu.  Deildarstjóri móttökudeildar er einnig til ráðgjafar varðandi námsefni og kennsluaðferðir.

Vinnuferli í móttökudeild

Móttaka nemenda

 • Foreldrar og nemandi boðaðir á fund vegna innritunar.  Deildarstjóri móttökudeildar undirbýr fundinn og sér um að panta túlk.
 • Túlkafundur með foreldrum og barni, deildarstjóri móttökudeildar sér um fundinn.  Á þessum fundi fær skólinn ýmsar bakgrunnsupplýsingar um nemandann s.s. námslegar og heilsufarslegar og foreldrum eru veittar upplýsingar um þá þjónustu sem skólinn veitir. Foreldrum og barni er sýndur skólinn.
 • Mikilvægt er fyrir skólann að fá upplýsingar um námsferil barns, félagslega stöðu, menningarlegan bakgrunn og heilsufar (sjá innritunarviðtal).  Mikilvægt er að kynna foreldrum ýmislegt varðandi skólann s.s. nestismál, heimavinnu, mötuneyti, frímínútur, frístund o.fl. (sjá gátlista). Á þessum fyrsta fundi er foreldrum afhentur bæklingur um íslenska grunnskólann frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur sem þýddur hefur verið á nokkur tungumál. Einnig aðrir upplýsingabæklingar sem þýddir hafa verið svo sem um mikilvægi móðurmáls, réttindi og skyldur foreldra, útivistarreglur o.fl. Foreldrar fylla einnig út upplýsingablað varðandi heilsufarsmál barna sinna sem hjúkrunarfræðingur kemur til heilsugæslu.
 • Annar fundur með foreldrum og haldinn nokkrum vikum eftir komu barns.  Þar eru foreldrar upplýstir um ýmis samfélagsleg mál s.s. barnavernd og hlutverk Fjölskyludþjónustunnar, heilsuvernd barna og íslenska heilsugæslu, félagsmiðstöðvar, íþróttafélög og annað framboð á tómstundum. (sjá gátlista vegna viðtals 2).  Á þessum fundi er foreldrum einnig afhentir ýmsir bæklingar um íslenskt samfélag sem gefnir hafa verið út á nokkrum tungumálum.
 • Nemendur fyrstu dagana eingöngu í móttökudeild.  Námsleg staða er metin eins og hægt er og nemendum kynntur skólinn.  Deildarstjóri móttökudeildar ákveður í samráði við skólastjórnendur í hvaða árgang og bekk nemandinn fer og samband er haft við umsjónarkennara.  Nemandinn kynntur fyrir bekknum sínum.
 • List- og verkgreinakennarar eru látnir vita um nemandann (sjá meðfylgjandi eyðublað).  Reynt er að fylgja nemanda í list- og verkgreinar fyrstu tímana ef mögulegt er.
 •  Í lok fyrstu viku fá nemendur stundatöflur.  Einn ákveðinn kennari í  móttökudeild ber ábyrgð á hverjum nemanda og fylgist með framvindu hans í námi og aðlögun.
 • Einstaklingsáætlun er útbúin fyrir nemandann. Ákveðið er í hvaða hóp í móttökudeild nemandinn fer, hve marga tíma hann þarf og hvaða námsefni er lagt til grundvallar kennslunni.
 • Deildarstjóri, félagsráðgjafi og kennarar móttökudeildar eiga samstarf við umsjónarkennara vegna félagslegrar og námslegrar aðlögunar í almennum bekk.

Nám í móttökudeild

 • Nemendur í móttökudeild eru á ólíkum og aldri og hafa mismundandi menningarlegar og námslegar forsendur. Nemendur fá ýmist tíma í litlum hópi eða sem einstaklingar.  Unnið er út frá einstaklingsáætlun fyrir hvern og einn.  
 • Framfarir nemenda eru metnar jafnt og þétt.  Námsmat er fjölbreytt og miðast við mállegar forsendur nemenda hverju sinni.
 • Eftir því sem nemendum fleytir fram fara þeim meira út í almennan bekk.  Stundatafla er endurskoðuð tvisvar til þrisvar yfir veturinn og breytt ef þurfa þykir.  Nemendur fá þá aðstoð í móttökudeild við að undirbúa bóklega tíma í almennum bekk.
 • Í lok skólaárs er farið yfir framfarir nemandans og ákveðið í framhaldinu hvort hann er í stakk búinn til að hefja nám í almennum bekk og þá hve mikla og hvernig aðstoðar hann þarfnast.

Móttaka nemenda í 1. – 4. bekk.

 • Foreldar boðaðir á fund vegna innritunar, deildarstjóri yngsta stig og umsjónarkennari undirbúa fundinn og deildarstjóri móttökudeildar sér um að panta túlk.
 • Túlkafundur með foreldrum og barni, deildarstjóri yngsta stigs sér um fundinn.  Á þessum fundi fær skólinn ýmsar bakgrunnsupplýsingar um nemandann s.s. námslegar og heilsufarslegar og foreldrum eru veittar upplýsingar um þá þjónustu sem skólinn veitir. Foreldrum og barni er sýndur skólinn
 • Mikilvægt er fyrir skólann að fá upplýsingar um námsferil barns, félagslega stöðu, menningarlegan bakgrunn og heilsufar (sjá innritunarviðtal).  Mikilvægt er að kynna foreldrum ýmislegt varðandi skólann s.s. nestismál, heimavinnu, mötuneyti, frímínútur, frístund o.fl. (sjá gátlista). Á þessum fyrsta fundi er foreldrum afhentur bæklingur um íslenska grunnskólann frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur sem þýddur hefur verið á nokkur tungumál. Foreldrar fylla einnig út upplýsingablað varðandi heilsufarsmál nemanda sem hjúkrunarfræðingur kemur til heilsugæslu. Foreldar fá einnig afhenta stundatöflu nemandans og innkaupalista.
 • Ákveðið er hve mikla aðstoð nemandinn fær inni í bekk s.s. varðandi stuðning, aðlagað námsefni o.fl. Deildarstjóri yngsta stigs, deildarstjóri sérkennslu og umsjónarkennari sjá um þetta.
 • Ákveðið hve marga tíma í íslensku sem öðru máli nemandinn fær á viku og hver kennir þessa tíma. Oft er nemendum kennt í litlum hópum. Miðað er við að nemendur á fyrsta ári fái ekki færri en 5 tíma á viku. Verkefni deildarstjóra yngsta stigs og deildarstjóra sérkennslu og deildarstjóra móttökudeildar.
 • Bekkurinn undirbúinn undir komu nýja nemandans e.t.v. með því að kynna land hans og tungumál.  Nemendur hvattir til að aðstoða nemandann.  Vel hefur gefist að nemendur skiptist á að bera svolitla ábyrgð á erlenda nemandanum fyrstu vikurnar. Verkefni umsjónarkennara.
 • Nemandinn fær sérstakan stuðning starfsmanns ef hægt er að koma því við.  Þessi starfsmaður fylgir þá nemandanum fyrstu skrefin og aðstoðar hann í nýju umhverfi. Ákvörðun skólastjórnenda.
 • Samstarf við foreldra er mikilvægt.  Haft er samband við foreldra eins oft og þurfa þykir.  Sjá þarf til þess að skilaboð frá skóla berist foreldrum á tungumáli sem þeir skilja.  Verkefni umsjónarkennara en deildarstjóri móttökudeildar er til aðstoðar og ráðgjafar ef þarf.
 • Námsefni, kennsluaðferðir og námsmat eru miðuð við þarfir nemandans og getu.  Deildarstjóri móttökudeildar er til ráðgjafar varðandi þessi atriði.  Verkefni umsjónarkennara og kennara í íslensku sem öðru máli.

Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is