Breytingar á grunnskólastarfi frá mánudegi 23. nóvember 2020.

20.11.2020

Í eitt skiptið enn á þessu skólaári þurfum við að kynna ykkur breytingar á framkvæmd grunnskólastarfs í Hafnarfirði. Þessar breytingar sem um ræðir taka gildi mánudaginn 23. nóvember og gilda til 1. desember nk. Við nýjar breytingar leggjum við áherslu á að stíga varlega til jarðar og fara aðeins í aðgerðir eða breytingar sem virða sóttvarnareglur heilbrigðisyfirvalda. Við biðjum um þolinmæði gagnvart þessum breytingum en leggjum um leið áherslu á mikilvægi þess að samstaða og samvinna sé um framkvæmdina – sem er samræmd fyrir grunnskóla Hafnarfjarðar.

Eftir yfirlegu skólastjórnenda og fræðsluyfirvalda í Hafnarfirði á nýrri reglugerð sóttvarnayfirvalda er það niðurstaðan að viðhafa í meginatriðum sama skipulag áfram og hefur verið í grunnskólunum í nóvember frá mánudeginum 23. nóvember sem standi til 1. desember. Nemendur eru áfram í sínum bekkjum í sínum kennslustofum sem mynda eitt hólf (5.-10. bekkur) eða tveir bekkir saman á yngsta stigi (1.-4. bekkur). Einu kennsluhólfi í einu verður leyft að sækja skólasöfnin verði því viðkomið en þau verða sótthreinsuð á milli hópa í mismunandi kennsluhólfum. Nemendur á yngsta stigi fá áfram fullan kennsludag og frístundaheimili en frístundabílinn bætist nú við með sama skipulag frá því fyrr í haust. Nemendur og kennarar í 5.-7. bekkjum hafa ekki lengur grímuskyldu í kennslustundum og skólalóðin er laus undan grímuskyldu fyrir alla nemendur en grímuskylda er áfram meðal nemenda og kennara/starfsmanna í 8.-10. bekk í kennslustofum og á göngum skólans. Nýja reglugerðin gefur skólunum möguleika að skipuleggja frímínútur inn í skóladeginum, sökum þess að ekki er lengur hólfaskipting á skólalóðinni, en áfram munu nemendur í 5.-10. bekk vera með fjórar kennslustundir á dag í skólanum og aukna heimavinnu, mögulega með fjarfundum með kennurum eins og hver skóli og kennarar ákveða. Tímasetningar á viðveru í skóla hjá eldri nemendum geta mögulega breyst. Kennsla íþrótta í íþróttahúsum og sundkennsla í sundlaugum er möguleiki sem hver skóli skoðar en það er ekki talinn möguleiki þar sem aðstæður leyfa. Hver skóli mun kynna fyrir foreldrum sínum ákvarðanir hér.

Það hefur verið okkur mikilvægt að geta haldið úti matarþjónustu fyrir nemendur við þessar skerðingar á skólastarfi en það verkefni hefur ekki verið án áskorana. Þar hefur samvinna við Skólamat verið til fyrirmyndar þrátt fyrir erfiðar aðstæður fyrir fyrirtækið. Þannig var tekið upp á að afhenda nemendum hádegismat í einnota bökkum inni í kennslustofum en það bauð ekki upp á sömu gæði og afhending matar í matsal og jók bæði matseldina og matarsóun auk annarra flækjustiga. Nú er sú staða uppi að ekki fást lengur matarbakkar á landinu til að halda þessari framkvæmd áfram Því hefur verið tekin sú ákvörðun að taka matsalina aftur í notkun en með breyttri framkvæmd, þ.e. hólfun og afhendingu hádegismatar yfir lengri tíma en áður sökum minni hópa í salnum hverju sinni. Ef einstaka skólar geta ekki komið öllum nemendum sem eiga pantaðan hádegismat í matsal, eða geta sótt hann þar og farið með í kennslustofur, munu elstu nemendur sumra skóla fá einfaldari mat, þ.e. samloku, vefju, pasta o.þ.h., í stofur sem sinn hádegisverð. Við gerum okkur grein fyrir að þetta er ekki ákjósanlegasta staðan en við óskum eftir velvilja foreldra gagnvart þessari framkvæmd því okkur sýnist þetta vera eini möguleikinn til að reyna til að færa öllum nemendum sem eru í áskrift á mat að fá hann og að þurfa ekki að fella hann niður. Hver skóli mun kynna foreldrum það nánar eftir því hvað á við um þeirra börn hér.

Að lokum þökkum við ykkur forráðamönnum alla þolinmæðina gagnvart þessu stöðugu breytingum sem eiga sér stað og óskum ykkur velfarnaðar á þessum varhugaverða tíma kórónuveirufaraldurs.

Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.


Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is