Handhafi íslensku menntaverð­launanna 2010

4.11.2013

Skóli sem sinnt hefur vel nýsköpun eða farsælu samhengi í fræðslustarfi

„Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja.“ Þessi orð eiga vel við um sögu og þróun
Lækjarskóla í Hafnarfirði. Með 133 ára sögu að baki mótast starf þess skóla enn í dag af metnaði,
mannúð og framsýni stofnenda hans, prófastshjónanna í Görðum í Garðahreppi. Skólinn hefur
starfað í samfellu frá 1877, verið á fjórum stöðum í Hafnarfirði, og starfað undir þremur nöfnum.
Fyrst hét hann Barnaskóli Garðahrepps og svo Barnaskóli Hafnarfjarðar. Frá árinu 1961 hefur
nafn hans verið Lækjarskóli og fram til þess tíma var hann eini opinberi barna- og
unglingaskólinn í Hafnarfirði. 17 skólastjórar hafa starfað við skólann frá upphafi. Allir hafa þeir
sett mark sitt á starfsemi skólans með margbreytilegum áherslum; viðhaldið því sem vel var gert
en einnig aðlagað og þróað skólastarfið í samræmi við hugmyndir og áherslur í skólamálum á
hverjum tíma. Því má segja að saga skólans einkennist af farsælu og framsæknu fræðslustarfi sem
hefur verið hafnfirsku samfélagi til framdráttar á aðra öld.
Fjölbreytt og markvisst skólastarf einkennir starfsemi Lækjarskóla. Skólinn hefur lengi lagt
áherslu á verk- og listgreinar en margbreytileg og skapandi viðfangsefni stuðla að aukinni ánægju
nemenda og starfsfólks. Einnig er boðið uppá deildaskipt fjölnám í skólanum til að koma til móts
við mismunandi þarfir nemenda. Er námi þessu skipt upp í þrjá meginþætti:

  • Fjölgreinabraut, sem er tilraunaverkefni skólans og menntamálaráðuneytisins; tveggja ára nám sem hefur að markmiði að tryggja framhaldsnám við hæfi fyrir nemendur eftir 10. bekk.
  • Fjölgreinanám, sem ætlað er nemendum 9. og 10. bekkja úr hafnfirskum grunnskólum. Áhersla er lögð á einstaklingsbundna aðstoð, aukið verklegt nám og sjálfstyrkingu nemenda.
  • Fjöltækninám, fyrir nemendur sem eiga í tilfinninga- og félagslegum erfiðleikum.

Jafnframt er í Lækjarskóla starfrækt móttökudeild með fjölmenningarlegum kennsluháttum
fyrir nemendur með annað tungumál en íslensku. Þrátt fyrir að deildin sé tímabundið úrræði fyrir
grunnskólana í Hafnarfirði hefur hún orðið öðrum skólun að fyrirmynd. Þá eru í skólanum
bekkjatengd námsúrræði fyrir nemendur sem þarfnast sérstaks stuðnings og aðstoðar. Öflugt
félagsstarf er einnig rekið í skólanum, s.s. Jafnréttislestin þar sem viðfangsefnið er jafnrétti
kynjanna, og öflugur kór sem hefur verið starfræktur í nokkur ár. Kórnum er skipt í Litlakór,
Miðkór og Stórakór.
Lækjarskóli tekur virkan þátt í ýmsum þróunarverkefnum, s.s. samstarfsverkefni
félagsmálaráðuneytisins um jafnrétti kynjanna, samvinnunámsverkefninu Enginn getur allt. Allir
geta eitthvað, og verkefninu SMT jákvæð skólafærni. Hafnarfjörður hefur markað sér
metnaðarfulla áætlun um forvarnarstarf fyrir börn og unglinga og tekur Lækjarskóli virkan þátt í
því með aðstoð foreldrafélags skólans.
Af framangreindu er ljóst að Lækjarskóli er verðugur handhafi menntaverðlaunanna 2010
fyrir farsælt samhengi í fræðslustarfi. Skólastarfið í Lækjarskóla á sér langa og farsæla sögu sem
hefur mótast í samræmi við aðstæður á hverjum tíma. Starfsemi skólans einkennist af metnaði og
samvinnu þar sem nemendur eru í brennidepli. Nám við skólann er í stöðugri þróun og beinist að
því að koma til móts við þarfir sem flestra og þjóna Hafnfirðingum sem best.


Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is