Blár apríl verður Einstakur apríl

Föstudaginn 1. apríl er dagur einhverfunnar og því ætlum við í Lækjarskóla að mæta í öllum regnbogans litum

29.3.2022

Í ár kveður við nýjan tón og ásýnd hjá félaginu, það leggur bláa litinn á hilluna og tekur upp nafnið Einstakur apríl. Merki félagsins fékk einnig yfirhalningu, merkið er nú í öllum regnbogans litum og undirstrikar áherslu á fjölbreytileika einhverfunnar. Þekking á einhverfu hefur aukist mikið síðustu ár, til að mynda með aukinni viðurkenning á einkennum kvenna á einhverfurófi. Nýja nafnið og litróf merkisins endurspeglar nú betur það sem við stöndum fyrir, fjölbreytileikann og það að einhverfa er ekki vandamál sem þarf að leysa heldur náttúrulegur hluti af fjölbreytileika mannlífsins.

Árleg herferð samtakanna nú í apríl verður því tileinkuð sýnileika á fjölbreyttu litrófi einhverfunnar og rödd einhverfra sjálfra.

Við hvetjum alla til að nota apríl til að kynna sér einhverfu. Á heimasíðu félagsins, https://einstakurapril.is/ er til að mynda að finna frábærar stuttar teiknimyndir sem tilvalið er fyrir foreldra að skoða með börnunum sínum og þannig skapa umræðu um margbreytileikann.


Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is