Skólareglur

Skv. grunnskólalögum nr. 91/2008, 30. grein, skal setja skólareglur sem kveða á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur.  Lækjarskóli hefur að leiðarljósi jákvæða agastjórnun, SMT.

Markmið skólareglna er að efla góðan starfsanda og ábyrgð nemenda á námi sínu og hegðun. Nemendur eiga rétt á að starfa í skólanum við fylsta öryggi. Því þurfa öll samskipti milli nemenda innbyrðis og við starfsfólk skólans að byggjast á gagnkvæmri virðingu og jákvæðum aga, en öllum réttindum fylgja skyldur.

Hornsteinar Lækjarskóla eru   ÁBYRGÐ – VIRÐING - ÖRYGGI

1)            Ábyrgð:

Að nemandi sýni þá ábyrgð að fylgja fyrirmælum starfsfólks, gangi frá eftir sig, geri ætíð sitt besta og sé stundvís.

2)            Virðing:

Að nemandi sé kurteis, tillitsamur, virði eigur og rétt annarra.

Það er hverjum manni nauðsynlegt að finna að hann njóti virðingar annarra.  Það veitir honum jákvæða sjálfsmynd og auðveldar samskipti við aðra.

3)            Öryggi:

Að nemandi sýni ætíð aðgæslu og gæti handa sinna og fóta og gangi hægra megin.

Jákvæð skólafærni byggir á þeirri hugmyndafræði að skapa gott andrúmsloft í skólanum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks.  Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun.

Hrós er notað sem jákvæð og árangursrík hvatning; hrós er jákvætt, einfalt og hreinskilið og sett þannig fram að nemandi skilji; hrósað er jákvætt, vingjarnlega og gjarnan með brosi.

Svanurinn, umbunarmiðinn, er gefinn þegar starfsmaður verður vitni að æskilegri hegðun nemanda, eins og að fara eftir reglum eða þegar hann sýnir framför.  Einnig er hægt að gefa hópum eða bekkjum Svaninn.  Nemandi skilar síðan Svaninum til umsjónarkennara.  Bekkurinn fær umbun þegar fyrirfram ákveðnum fjölda Svana er náð.

Stoppmiði er gefinn þegar nemanda tekst ekki endurtekið að fara eftir reglum skólans og við alvarlegri brot á reglum.  Þá fer ferli af stað skv. reglum SMT.


Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is