Jafnréttisstefna Lækjarskóla 2021 - 2022

Jafnréttisstefna þessi er unnin af jafnréttisteymi Lækjarskóla. Hlutverk teymisins er að fylgjast með stöðu jafnréttismála í umhverfi nemenda, vekja athygli þeirra á jafnréttismálum ásamt því að útbúa jafnréttisstefnu Lækjarskóla. Jafnréttisstefna þessi snýr að skólanum sem menntastofnun en jafnréttisstefna Hafnarfjarðarbæjar gildir um skólann sem vinnustað.

Í jafnréttisteymi Lækjarskóla skulu sitja að lágmarki 3 einstaklingar og skal leitast við að hafa fólk af öllum kynjum.

Í jafnréttisteymi Lækjarskóla veturinn 2021 - 2022 sitja eftirtalin:

  • Kristín Blöndal Ragnarsdóttir - teymisstjóri
  • Þórarinn Böðvar Þórarinsson
  • Hulda Ólafsdóttir
  • Ásbjörn Friðriksson
  • Jóhanna Þórunn Egilsdóttir
  • Sigríður Valdimarsdóttir
  • Berglind Annie Guðjónsdóttir

Jafnréttisstefna

Þættir sem litið er til eru jafnrétti í skólastarfi, fræðsla, einelti og kynferðisleg áreitni.

Jafnrétti í skólastarfi

Nauðsynlegt er að starfsfólk sýni gott fordæmi, að það sé góðar fyrirmyndir og stuðli að jafnrétti í orði og verki. Í skólastofunni er mikilvægt að kennari leggi fyrir fjölbreytt verkefni sem höfða til mismunandi nemendahópa. Kennarinn verður að vera meðvitaður um þann fjölbreytileika sem kann að vera til staðar í nemendahópnum og að allir séu virkjaðir í náminu. Hvetja skal nemendur til dáða á sviðum sem eru utan hefðbundinna kynhlutverka.

Skólinn á að vera vettvangur fyrir nemendur til þess að prófa sig áfram á ólíkum sviðum. Í námsgreinum þar sem kynjunum gengur almennt misvel að tileinka sér námsefnið skal markvisst reynt að nota aðferðir og efni til að hvetja alla nemendur til dáða. Kennarar bera ábyrgð á að nota námsefni sem er samið af og fjallar um einstaklinga með fjölbreytilegan bakgrunn og endurspegla fjölbreytileika nemendahópsins. Ekki skal ganga út frá því að allir nemendur séu gagnkynhneigðir eða hafi allir kynvitund sem fellur að tvískiptingunni í karla og konur og gera skal ráð fyrir fleiri kynjum í allri umræðu. Kennarar skulu vera vakandi fyrir því hvort halli á nemendur út frá kyni varðandi framkomu í þeirra garð, s.s. hvort stúlkur og piltar séu spurð álíka oft og þeim kennt af jafn mikilli dýpt og sérhæfingu. Kennarar skulu kynna sér grunnþætti menntunar um jafnrétti, lýðræði og mannréttindi og tryggja það að þeir séu í hvívetna fléttaðir inn í alla kennslu. Starfsfólk skal þar að auki fá reglulega fræðslufundi og námskeið sem snerta jafnréttismál.

Fræðsla fyrir nemendur

Nemendur skulu fá fræðslu um jafnrétti kynjanna. Í þeirri fræðslu skal leggja áherslu á styrkleika, skyldur og réttindi allra nemenda. Hluti af jafnréttisfræðslu skólans á að taka fyrir mismunun byggða á aldri, búsetu, fötlun, kyni, kynhneigð, kynvitund, lífsskoðunum, menningu, stétt, trúarbrögðum eða þjóðerni. Nemendur fá þjálfun í að vinna gegn hvers konar misrétti.

Fjallað er um jafnrétti í ýmsum námsáföngum og skal hvert tækifæri nýtt til að benda á fjölbreytileika mannlífs. Nemendur í 8. - 10. bekk fá eina kennslustund í viku sem er tileinkuð kynja- og fjölbreytileikafræðum.

Kynferðiseinelti og kynferðisleg áreitni

Auka skal fræðslu um einelti, kynbundna og kynferðislega áreitni til að stuðla að því að allir nemendur séu meðvitaðir um slík málefni og geti greint slík mál og brugðist við þeim. Þegar slík mál koma upp skulu þau fara í ferli samkvæmt viðbragðsáætlun skóla.


Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is