Skólabókasafn

Bókasafn Lækjarskóla er ætlað fyrir nemendur og starfsfólk skólans.

Á bókasafninu er nemendum kennt á markvissan hátt að nota safn og safnkost þannig að þeir þekki þá möguleika sem bókasöfn bjóða upp á til upplýsingaöflunar og vinnslu.

Bókasafnið er hugsað sem lifandi fræðslu- og upplýsingamiðstöð.  Það á að styðja við kennslu og veita nemendum og starfsfólki greiðan aðgang að upplýsingum og heimildum. 

Auk þess er eitt af hlutverkum skólasafnsins að styðja við og hvetja nemendur til lesturs. Nemendur á öllum aldri fá lánaðar bækur og reynt er að örva áhuga þeirra á lestri bóka, bæði til skemmtunar og fróðleiks.

Leitast er við að hafa sem fjölbreyttastan safnkost, bæði af fræði – og afþreyingarefni.  Á safninu eru geymd, auk bóka, myndbönd, tímarit og spil.  Handbækur eru staðsettar á safninu, í sérgreinastofum og á vinnuherbergi kennara.  Efnið  telur nú rúmlega 16 þúsund eintök.  Útlánstími bóka er 30 dagar.

Nemendur á öllum aldri koma á bókasafnið og vinna að verkefnum sem hæfa aldri og getu. Nemendur í 1. og 2. bekk koma reglulega í heimsókn yfir skólaárið og vinna minni verkefni.  Nemendur í 3.-6. bekk eru með tíma skráða í stundatöflu og í þeim tímum eru unnin verkefni á sviði upplýsinga- og menningarlæsis.

Leitast er við að styðja við verkefnavinnu allra nemenda þegar kemur að heimildaöflun. Grundvöllur slíkrar verkefnavinnu á bókasafni er gott samstarf bókasafnsfræðings og kennara.

Allir nemendur hafa aðgang að lestraraðstöðu og tölvum á safninu til að vinna að ritgerðum eða verkefnum og geta þá fengið leiðbeiningar um úrvinnslu heimilda og gerð heimildaskráa. 

Allur safnkosturinn er skráður í tölvukerfið Leitir (sjá www.leitir.is ), sem er sameiginlegt bókasafnskerfi fyrir allt landið. 

Umsjón með bókasafninu hefur Arndís Harpa Einarsdóttir arndisharpa@laekjarskoli.is og Sigrún Birgisdóttir

Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is