SMT skólafærni

Skólareglur

Gert er ráð fyrir að hver skóli setji skólareglur í samráði við foreldra og nemendur. Skólinn hefur þróað í samvinnu við Skólaskrifstofu og Oregonháskóla svokallaða SMT skólafærni sem markar skólareglur Lækjarskóla. Lækjarskóli var fyrstur skóla ásamt Víðistaðarskóla á Íslandi að innleiða SMT skólafærni og er nú útskrifaður sem sjálfsæður SMT skóli.

Markmiðið SMT skólafærni er að stuðla að góðu námsumhverfi, æskilegri hegðun og að auka félagsfærni. SMT gengur m.a. út á að veita jákvæðri hegðun athygli og styrkja hana. Setja fram skýrar afmarkaðar reglur sem lýsa æskilegri hegðun, en ekki því sem bannað er eða má ekki gera. Skólinn hefur þrjú einkunnarorð sem eru undirstaða skólareglna: ÁBYRGÐ – VIRÐING –ÖRYGGI.

SMT aðferðin

Rannsóknir hafa leitt í ljós að í hverjum skóla má gera ráð fyrir þrenns konar nemendum. „Venjulegum“ nemendum (85 til 90%), nemendum sem sýna fyrstu merki andfélagslegrar hegðunar og eiga á hættu að þróa með sér andfélagslegt hegðunarmynstur (7 til 10%) og nemendum sem þegar sýna töluverða andfélagslega hegðun og eru í mikilli áhættu vegna enn frekari vandamála í framtíðinni (3 til 5%). Gert er ráð fyrir því að brugðist sé við þessum þremur nemendahópum á mismunandi hátt t.d. með leiðréttingu á hegðun og atriðum sem tengjast bekkjarstjórnun. Lausnarteymi skólans vinnur náið með kennurum þeirra sem tilheyra efsta lagi þríhyrningsins ásamt þeim sérfræðingum sem skólinn hefur á sínum snærum.

SMT skólafærni

Markmið SMT-skólafærni (hafnfirsk útfærsla á bandarísku aðferðinni Positive Behavior Support/PBS) er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi nálgun byggir á margra ára rannsóknum sérfræðinga, í Oregon í Bandaríkjunum, og er framkvæmd í samráði við þá.

SMT-skólafærni byggir á hugmyndafræði PMT-FORELDRAFÆRNI og er framkvæmd undir merkjum þeirrar þjónustueiningar, sem verið hefur leiðandi hér á landi í notkun og útbreiðslu PMT verkfæra til uppalenda. PMT (Parent Management Training) verkfærin eru vel rannsökuð af færustu sérfræðingum, notkun þeirra stuðlar að góðri aðlögun barna og þau eru því afar mikilvæg hjálpartæki. Foreldrum býðst að tileinka sér PMT foreldrafærni jafnframt því sem skólasamfélagið á möguleika á innleiðingu SMT skólafærni.

Jákvæð skólafærni byggir á þeirri hugmyndafræði að skapa gott andrúmsloft í skólanum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun.
Hrós er notað sem jákvæð og árangursrík hvatning; hrós er jákvætt, einfalt og hreinskilið og sett þannig fram að nemandi skilji; hrósað er jákvætt, vingjarnlega og gjarnan með brosi.
Svanurinn, umbunarmiðinn, er gefinn þegar starfsmaður verður vitni að æskilegri hegðun nemanda, eins og að fara eftir reglum eða þegar hann sýnir framför. Einnig er hægt að gefa hópum eða bekkjum “Svaninn“. Nemandi skilar síðan „Svaninum“ til umsjónarkennara. Bekkurinn fær umbun þegar fyrirfram ákveðnum fjölda „Svana“ er náð.
Stoppmiði er gefinn við þegar nemenda tekst ekki endurtekið að fara eftir reglum skólans og við alvarlegri brot á reglum. Þá fer ferli af stað skv. reglum SMT.

Frekari upplýsingar fyrir foreldra má finna á heimasíðu Hafnarfjarðar

Til að stuðla að jákvæðri hegðun og fyrirbyggja óþörf hegðunarbrot eru á öllum svæðum skólans skilgreiningar um rétta/æskilega hegðun og þær reglur settar í svokallaða reglutöflu. Þá eru samræmd viðbrögð starfsfólks með áherslu á að veita jákvæðri hegðun athygli og nálgast nemendur á jákvæðan hátt. Eins eru samræmdar aðgerðir og skráningar, ef til hegðunarbrota kemur og þær færðar inn í Mentor. Þar er skráð hvað gerðist, hvar, hvenær og hver viðurlög eru og hafa foreldrar aðgang að þeim upplýsingum.

Brot á skólareglum

Ef nemandi gerist sekur um alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum er heimilt að vísa honum tímabundið úr skóla meðan leitað er úrlausna á hans málum enda verði forráðamönnum og fræðsluyfirvöldum tilkynnt tafarlaust um þá ákvörðun skólayfirvalda. Ef nemandi veldur truflun í kennslustund og lætur sér ekki segjast við áminningu kennara er heimilt að vísa nemandanum úr tíma. Viðkomandi kennari gerir ráðstafanir sem hann telur þurfa að gera, t.d. tala við foreldri/forráðamann eða/og umsjónarkennara. Ef málið leysist ekki hjá umsjónarkennara fer málið áfram til deildarstjóra. Ef það leysist ekki þar er því vísað áfram til skólastjóra/aðstoðarskólastjóra og þaðan til skólaskrifstofu. Kennari hefur ekki leyfi til að senda heim án vitundar stjórnenda. Nemendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eignum skóla, starfsfólks eða skólafélaga sinna.


Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is