Skólastarf 3.-17. nóvember

2.11.2020


Til foreldra nemenda í Lækjarskóla

Þriðjudaginn 3. nóvember 2020 taka gildi nýjar sóttvarnarreglur og ná til 17. nóvember nk. Að sumu leyti eru sóttvarnarfyrirmæli flóknari nú en áður og krefjast meira af nemendum og skólunum. Skólastjórnendur Lækjarskóla hafa um helgina verið að undirbúa breytingar og nemendur, stjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skóla er í dag að undirbúa sig fyrir næstu vikur. Meginmarkmiðið er að halda úti sem bestu skólastarfi miðað við þær sóttvarnakröfur sem gerðar eru. Það er þó óhjákvæmilegt annað en að breytingarnar muni hafa áhrif á skóladaginn hjá öllum nemendum á einhvern hátt. Við kynnum hér aðgerðir sem munu gilda næstu tvær vikurnar. Ekki er á þessari stundu vitað hvað tekur við eftir 17. nóvember.

Kennsla fer fram í heima-/umsjónarstofum næstu tvær vikurnar. Það verður ekki sund- eða íþróttakennsla í íþróttahúsum og engin kennsla fer fram í list- og verkgreinastofum. Starfsfólki hefur verið skipt í teymi þar sem ekki verða fleiri en 10 fullorðnir og þeir tengjast um leið einu kennsluhólfi (sjá hér neðar). Nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðar fá jafnmikla kennslu til 17. nóvember, mismarga tíma eftir aldri.


Yngsta stig

Nemendur í 1.-4. bekk (yngsta stig) fá fullan skóladag og mun sú kennsla fara fram í bekkjarstofu. Skólinn opnar kl. 8:10 en kennsla hefst klukkan 8:30 og lýkur 13:20. Nemendum er frjálst að mæta frá kl. 8:10-8:30. Nemendum er skipt í kennsluhólf sem í geta verið allt að 50 nemendur (tveir bekkir/árgangur) og innan þess geta allt að 10 fullorðnir verið. Kennsla verður 6 kennslustundir á dag. Nemendur fara út í frímínútur eftir árgöngum og eiga ekki að blandast öðrum nemendum. Nemendur nota sömu innganga og venjulega og fara beint inn í stofur.


Frístund

Frístund er opin fyrir þá nemendur sem þar eru skráðir.
Við erum með opið til klukkan 17:00 eins og alltaf en við erum búin að skipta Lækjarseli í fjögur hólf eftir árgöngum. Það eru fastir starfsmenn í hverju hólfi og fara þeir ekki á milli hólfa, börnin mega heldur ekki fara á milli hólfa.

Sigmar verður á skrifstofunni sinni á græna gangi og má ekki fara inn í stofurnar, en svarar síma – 664-5889 og tölvupósti – sigmaringi@hafnarfjordur.is.

Í Lækjarseli er hvert hólf með sérstakan útiverutíma. Börnin fá síðdegishressingu sem þau borða inni í skólastofunni, gott væri að hvert barn væri með sinn vatnsbrúsa.

1. bekkur – notar sama inngang og venjulega og verður í Lækjarseli og í Lækjarhorni þegar frístundin er. Ef þið þurfið að ná í nemendur eða starfsfólk þá hringið í síma 534-0595.

2. bekkur – notar innganginn á gula gangi eins og venjulega og verður í sinni skólastofu í frístund. Ef þið þurfið að ná í nemendur eða starfsfólk í 2. bekk þá hringið í síma 664-5510.

3. bekkur – verður í íþróttahúsinu og þegar þau ljúka skólanum þá fara þau yfir í íþróttahúsið þar sem starfsfólk tekur á móti þeim. Ef þið þurfið að ná í nemendur eða starfsfólkið í 3. bekk þá hringið í síma 555-0404.

4. bekkur – notar innganginn á gula gangi eins og venjulega og verður í sinni skólastofu þegar frístundin er. Ef þið þurfið að ná í nemendur eða starfsfólkið í 4. bekk þá hringið í síma 664-5752.


Mið- og elsta stig

Í 5.-10. bekk koma nemendur í styttri skóladag að morgni og fram að/yfir hádegismat eða 4 kennslustundir á dag. Skóli hefst kl. 8:30 þessa daga og lýkur 11:50.

Hver bekkur er sérstakt kennsluhólf og blandast ekki nemendum annarra bekkja. Nemendur fara ekki út í frímínútur og eru í umsjón kennara allan tímann. Nemendur mið- og elstastigs mega búast við auknu námi heima sökum styttingar á daglegri kennslu í skóla. Þar sem EKKI er hægt að halda 2ja metra fjarlægðarreglu í kennslustofum þurfa ALLIR nemendur í 5.-10.bekk að vera með grímur í skólanum, bæði á göngum skólans og í kennslustundum. Þeir nemendur sem ekki koma með grímur að heiman geta fengið einnota grímu í anddyri skólans. Nemendur nota sömu innganga og venjulega og fara beint inn í stofur.


Skólamatur

Skólamatur verður með hefðbundnu sniði, þ.e. þeir nemendur sem eru í áskrift að ávöxtum og hádegismat í nóvember munu fá matinn sinn í samræmi við áskrift. Öll neysla matar mun þó færast inn í stofur þar sem nemendur munu fá hádegisverð afhentan í einnota bökkum. Hafragrautur að morgni fellur niður þessar tvær vikur en síðdegishressing í frístundaheimili er óbreytt. Áfram er hægt að koma með nesti í skólann.

Foreldrar eiga ekki að koma inn í skóla nema í undantekningartilvikum, þ.e. ef skóli kallar á foreldra vegna veikinda eða vegna annarra sérstakra aðstæðna. Foreldrar sem fylgja börnum sínum í skólann er ekki leyfilegt að fara inn í skólann. Almennt gilda sömu reglur um veikindi og leyfi og verið hafa. Mikilvægt er að láta skólann vita ef nemendur eru í sóttkví.

Vitinn

Starfsemi félagsmiðstöðva mun alfarið færast á rafrænt form. Starfsemin mun fara fram á Instagram og dagskrá verður aðgengileg www.facebook.com/felagsmidstodinvitinn


Sóttvarnaraðgerðirnar eru íþyngjandi fyrir skólastarfið, bæði starfsfólk og nemendur. Við biðjum um þolinmæði gagnvart breytingum á starfsemi sem mun eiga sér stað, bæði styttingu skóladags hjá hluta nemenda og takmarkandi kennslustarfsemi undir þessum kringumstæðum. Mikilvægt er að horfa jákvætt á nýjar aðstæður því hæfni manns til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum er eiginleiki sem gefur fleiri tækifæri í lífinu og eykur þrautseigju okkar.

Stjórnendur Lækjarskóla.


Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is