Útskrift nemenda úr 10. bekk

9.6.2020

Nú er runninn upp merkilegur dagur, í dag lýkur skólagöngu ykkar hér í Lækjarskóla.

Ef til vill eruð þið með fiðring í maganum, eruð glöð og spennt eða jafnvel pínulítið hrædd. Ég veit að það getur verið ógnvekjandi að takast á við breytingar og byrja á nýjum vettvangi, en mitt ráð til ykkar er einfaldlega að þora. Ég veit að þið eruð hugrökk, hafið trú á ykkur! Ég veit að þið bæði getið og kunnið. Þorið að kynnast nýju fólki á nýjum stað til þess að víkka sjóndeildarhringinn og eignast nýja vini. Þorið að gera hluti sem virðast erfiðir í fyrstu og þið munuð uppskera í samræmi við það sem þið leggið á ykkur. Munið að lífið er miklu meira en góður námsárangur, það fjallar um að finna sjálfan sig og velja það líf sem þú vilt.

Ég bið ykkur að minnast tímans í Lækjarskóla með stolti yfir öllu því sem þið hafið lært, og ekki endilega bara það sem tekið er úr bók. Ég veit samt að bæði þið og kennararnir ykkar hafið gert allt sem ykkar valdi stendur til þess að þið næðuð hámarksárangri. Þið útskrifist héðan í dag með stolti og getið klappað ykkur á öxlina og sagt: “Þetta gerði ég vel. Þetta tókst mér.”

Við ykkur nemendur segi ég: Góða ferð, þið eruð tilbúin - nú fljúgið þið ykkar leið.

Starfsmenn Lækjarskóla óska öllum nemendum í 10. bekk til hamingju með árangurinn. Ákveðin tímamót að klára grunnskólann. Þessum áfanga er lokið og næsti tekur við.

Takk fyrir samstarfið og samfylgdina kæru nemendur.Utskrift2020-skolastjori

Utskrift2020-bordin

Utskrift2020-gjafirUtskrift2020-bordin-Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is