Comenius

Valfag í íslensku fyrir 9. – 10. bekk 2013-2015

4.11.2013

Comenius (lme.is) – Lækjarskóli fékk styrk frá Menntaáætlun ESB ásamt fjórum öðrum skólum í Evrópu árið 2013.

Verkefni eru unnin í samstarfi við skóla í Englandi, Þýskalandi, Finnlandi og Noregi. Eitt af markmiðum Comenius er að nemendur í mismunandi Evrópulöndum fái tækifæri til þess að kynnast og vinna saman að sameiginlegu markmiði. Að skilningur á menningu og mismunandi þjóðum aukist. Nemendur skipuleggja vinnu sína varðandi sameiginleg verkefni. Samskipti landa á milli eru á netinu á samskiptamiðlum eins og eTwinning, Skype og tölvupósti. Þar að auki skiptast nemendur á að fara í heimsóknir í skólana í þessum fjórum löndum. Verkefnið stendur yfir í tvö ár.

Unnið er með þekktar sögur í hverju landi fyrir sig.

Við í Lækjarskóla kynnum Laxdælu fyrir nemendum hinna skólanna. Verkefni varðandi undirbúning að upptöku leikinnar stuttmyndar úr efni Laxdælu eru unnin í hverju landi um sig. Á meðan á undirbúningi heimsóknar til Íslands stendur eru nemendur í öllum fimm löndunum að vinna við hina mismunandi þætti, t.d. búa til útdrátt úr sögunni yfir á ensku, semja handrit o.s.frv.

Framlag skólans í Englandi er Arthúr konungur og riddarar hringborðsins, frá Þýskalandi kemur Niflungasaga, í Finnlandi urðu hinir Þrír bræður fyrir valinu og norsku nemendurnir kynna til sögunnar Vegvísinn. Lokaafurð samstarfsverkefnisins verða stuttmyndir út frá hverri sögu fyrir sig og skýrsla um það hvernig hver og ein heimsókn gekk fyrir sig.

Foreldrar nemenda í hverju landi þurfa að veita leyfi fyrir því að barn þeirra fari í námsferð erlendis sem er þáttur í verkefninu. Munu nemendur fá gesti til sín í tæplega eina viku enda gista þeir sjálfir annars staðar í jafn langan tíma.

Markmið Menntaáætlunar ESB er að stuðla að þróun öflugs þekkingarsamfélags í Evrópu. Sérstök áhersla er lögð á samskipti, samstarf, samnýtingu reynslu og þekkingar um menntun og þjálfun í Evrópu.

Comenius miðar að því að koma á gæðastarfi í skólum og tryggja Evrópuvitund í menntun. Styrkt eru fjölþjóðleg samstarfsverkefni við skóla víðs vegar í Evrópu. Einnig er lögð áhersla á að auka möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar kennara og efla tungumálanám á öllum skólastigum.

Þátttaka íslenskra skóla

  • Yfir 1500 nemendur hafa farið í ferðir/nemendaskipti í Comenius verkefnum
  • 2400 kennarar hafa fengið styrki til að sækja námskeið og fundi í Evrópu
  • 170 skólar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi hafa tekið þátt í skólaverkefnum
  • 4000 nemendur og 100 kennarar eru ár hvert þátttakendur í evrópsku skólasamstarfi

Lækjarskóli | Sólvangsvegi 4, 220 Hafnarfjörður
Sími: 555-0585 | Netfang: skoli@laekjarskoli.is